Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er í fyrsta sæti í Suðvesturkjördæmi með 261 atkvæði en úrslit í forvali VG þar voru tilkynnt á sérstakri kosningavöku VG í Hamraborg laust eftir átta í kvöld.

Frá þessu er greint á Smugunni, fréttasíðu Vinstri grænna.

Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og bæjarfulltrúi í Kópavogi, hafnaði í öðru sæti með 234 atkvæði. Hann hafði einnig sóst eftir fyrsta sæti á listanum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag hafði Ólafur Þór staðið fyrir töluverðum nýskráningum í flokkinn í þeirri von að fella Ögmund Jónasson. Þá herma heimildir blaðsins að það hafi verið gert með samþykki flokksforystunnar.

Í þriðja sæti er Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi í fjármálaráðuneytinu, með 249 atkvæði.  Í fjórða sæti var Margrét Pétursdóttir.

1174 voru á kjörskrá og 487 greiddu atkvæði, sem þýðir að kosningaþátttaka var um 41%.