Frá því í lok janúar síðastliðinn hefur ríkið verið ráðandi aðili á íslenskum bankamarkaði. Eftir að Íslandsbanki féll í faðm ríkisins með afhendingu stöðugleikaframlags slitabús Glitnis til ríkisins voru um þrír fjórðu hlutar bankakerfisins komnir í eigu ríkisins, sem átti 98,2% í Landsbankanum og 13% í Arion banka fyrir.

Ríkið á forkaupsrétt á 87% hlut slitabús Kaupþings í Arion banka. Ef slitabúinu tekst ekki að selja hlut sinn í bankanum fyrir árslok 2018 mun ríkissjóður leysa bankann til sín. Að óbreyttu kemur ríkið til með að drottna yfir þremur stærstu bönkum landsins, líkt og fyrir tuttugu árum.

Um 70% eignarhlutur hins opinbera í bankakerfinu er fordæmislaus staða í sögulegu samhengi og í vestrænum samanburði. Á næstu misserum standa íslensk stjórnvöld frammi fyrir því umfangsmikla verkefni að endurskipuleggja bankakerfið og taka ákvörðun um sölu á hlutafé ríkisins í bönkunum til einkaaðila.

Söluferlið verður langt, flókið og áfangaskipt, en það er hagsmunamál ríkissjóðs og skattgreiðenda að næstu einkavæðingu ljúki fyrr en síðar. Á sama tíma er mikil óvissa um hvernig eignarhald bankanna verður þegar fram líða stundir. Kosningar eru á döfinni og pólitísk samstaða um framtíðareignarhald ríkisins í bönkunum takmörkuð.

Ríkiseign á svo kerfislega mikilvægum stofnunum og biðstaða bankakerfisins hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér í opinberum fjármálum og fyrir skattgreiðendur. Mikilvægt er þó fyrir stjórnvöld að marka skýra stefnu um hvernig rekstrarumhverfi bönkunum verður búið til framtíðar og hvert hlutverk ríkisins verði á bankamarkaði.

Ríkiseign óæskileg

„Í ríkisbönkum, þar sem ríkið er meirihlutaeigandi, eru skattgreiðendur lagðir að veði fyrir útlánum eins og eigið fé. Það þjónar hvorki hagsmunum skattgreiðenda né opinberum fjármálum að almannafé sé notað í svo áhættusömum geira. Peningarnir eiga frekar að renna til spítala og skóla og þess háttar,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið.

Íslensk stjórnvöld hafa þar að auki ekki sögulega tilhneigingu til að þjóðnýta skuldir og tap einkarekinna banka. „Í sjálfu sér ætti það að vera einn af lærdómum hrunsins að bankar eigi að vera í einkaeigu.“

Enn fremur séu rekstrarleg og söguleg rök fyrir því að halda ríkinu fjarri eignarhaldi banka. „Ríkisrekstur kallar á óeðlileg pólitísk afskipti. Gömlu ríkisbankarnir voru reknir á pólitískum forsendum með pólitíska bankastjóra og pólitískum lánveitingum, með miklu velferðartapi fyrir þjóðarbúið. Ríkið á ekki að hafa áhrif á bankastarfsemi með beinu eignarhaldi, heldur í gegnum stofnanir – Fjármálaeftirlitið, Seðlabanka og Alþingi,“ segir Ásgeir. „Það er því mjög mikilvægt að ríkið losi sig úr þessari stöðu og selji bankana.“

Hverjir geta keypt bankana?

Mengi innlendra kaupenda er lítið. Eigið fé í bönkunum er mun hærra en fyrir hrun, meðal annars vegna strangari lausafjárreglna. Einnig gilda nú hertar reglur um lánveitingar banka upp í kaup á hlutabréfum fjármálafyrirtækja og í eigin hlutafé. Einu augljósu aðilarnir sem ráða yfir nægilega miklu fjármagni til að eignast ráðandi hlut eða hlut sem um munar í bönkunum, fyrir utan sjálft ríkið, eru lífeyrissjóðirnir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .