Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir það skjóta skökku við og sé óheppilegt að ekki liggi fyrir áþreifanlegar tillögur um framtíðarskipulag rannsókna á efnahagsbrotum. Skýrsla nefndar Sigurðar Tómasar Magnússonar , fyrrverandi héraðsdómara, hafi legið fyrir í langan tíma og vont sé að óvissa ríki um framhaldið. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Embætti sérstaks saksóknara var komið á fót tímabundið í kjölfar efnahagshruns. Í mörg ár hafi nú legið fyrir að embættið myndi leggjast af og því ættu uppsagnir ekki að koma á óvart. Hinsvegar komi á óvart að ekki hafi verið tekin ákvörðun hvað gerist þegar embættið verði lagt niður.

Furðar sig á seinagangi í innanríkisráðuneyti

„Já ég er raunverulega mjög hissa vegna þess að undirbúningurinn er búinn að vera svo langur og þegar lög um Sérstakan saksóknara voru sett var fyrirséð að það yrði einungis tímabundið," segir Vigdís Hauksdóttir í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Svo var talað um það að þetta myndi sameinast í einni öflugri efnahagsbrotadeild eða stofnun, sem sæi um þessi mál.“ Vigdís furðar sig á seinagangi málsins í innanríkisráðuneyti.

„Ég bara stóð í þeirri trú að ráðuneytið væri að vinna að þessu hörðum höndum en svo bara kemur annað í ljós," segir Vigdís. Hún segist ekki hafa spurt Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, út í málið en telur að hann muni leiða málið til lykta.

„Ég trúi því og vona að þetta verði bara leyst ekki síður en 1. desember, líka upp á fjárveitinguna," segir Vigdís Hauksdóttir