Óhöpp sem erlendir ferðamenn valda á bílaleigubílum eru kostnaðarsöm fyrir bílaleigur hér á landi. Tjón koma að miklu leyti til vegna hraðaksturs á malarvegum og eins er algengt að erlendir ferðamenn leigi sér litla bíla og keyri inn á erfið svæði, s.s. Sprengisand og Landmannalaugar.

Björgvin Njáll Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hertz á Íslandi, segir að þessu fylgi nokkur kostnaður fyrir bílaleigurnar, m.a. endurspeglist þetta í iðgjöldum til tryggingarfélaga.

Aðspurður um hvort slíkum tjónum fari fjölgandi segir Björgvin Njáll að réttar sé að segja að bílaleigurnar haldi betur um þessi mál en áður. Hins vegar sé oft erfitt að innheimta kostnað vegna tjóna þegar erlendir ferðamenn eru farnir úr landi.

Fækkuðu í bílaflotanum í vor

Björgvin Njáll segir að sumarið hjá Hertz hafi gengið vel, verið í takt við væntingar og vel það þrátt fyrir tjón sem kann að hafa orðið á bílum.

Hann segir að sl. vor hafi Hertz fækkað í bílaflota sínum með því að kaupa minna af nýjum bílum en áætlað var.

Aðspurður um horfurnar í vetur segir Björgvin Njáll að næstu mánuðir líti vel út en óráðið sé með veturinn í heild. Eftir bankahrunið sl. haust hafi innanlandsmarkaðurinn að mestu gengið til baka.