Innleiðingarhalli EES-tilskipana og fjöldi óinnleiddra reglugerða á Íslandi hefur aukist að undanförnu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA, sem birti hálfsárslegt frammistöðumat innra markaðssviðs í dag.

„Innleiðingarhalli tilskipana á Íslandi er nú 2%. Alls eru 15 tilskipanir útistandandi en voru 12 í síðasta frammistöðumati. Um er að ræða mesta fjölda tilskipana sem ekki hafa verið innleiddar á tilsettum tíma frá því í nóvember 2017.“

Af þessum útistandandi tilskipunum varða 80% umhverfismál og fjármálaþjónustu. Þar af hafa fimm tilskipanir er varða fjármálaþjónustu verið útistandandi í meira en fimm ár.

Fjöldi reglugerða sem ekki voru innleiddar að fullu í íslenskan rétt á tilsettum tíma jókst úr 137 í 191. Innleiðingarhallinn fyrir reglugerðir hafi því hækkað úr 3,9% í 5,2%. Meðal þeirra eru 72 óinnleiddar reglugerðir sem varða fjármálaþjónustu og 87 sem varða matvæla- og fóðuröryggi og heilbrigði og velferð dýra.

„Mikilvægt er að EFTA-ríkin innleiði löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins á réttum tíma og með réttum hætti þannig að íbúar á öllu Evrópska efnahagssvæðinu fái notið fulls ávinnings af EES-samningnum.“

117 af 160 samningsbrotamálum snúa að Íslandi

ESA opnar samningsbrotamál þegar það telur að EES EFTA ríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum.

ESA hefur nú til meðferðar samtals 160 samningsbrotamál gegn EES EFTA ríkjunum á innra markaðssviðinu. Af þessum málum snúa 117 að Íslandi, 4 að Liechtenstein og 39 að Noregi.