Í nýútgefnu Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans segir bankinn að verð atvinnuhúsnæðis sé hátt í sögulegu samhengi. Að verðhækkanir atvinnuhúsnæðis hafi verið örar frá árinu 2014 og að ójafnvægi geti verið að byggjast upp á markaðinum þar sem húsnæðiskostnaður fyrirtækja hafi verið að aukast meira en afkoma þeirra.

„Markaður með atvinnuhúsnæði hefur verið í uppsveiflu, með útlánavexti og örum verðhækkunum umfram afkomu fyrirtækja, verðlag afurða þeirrar framleiðslu sem húsnæðið hýsir og byggingarkostnað,“ segir í ritinu. Bankinn telur að útlit sé fyrir að áhætta tengd atvinnuhúsnæði muni því vaxa þó áhætta byggist hægar upp nú en í síðustu uppsveiflu.

Frá árinu 2014 hefur verð atvinnuhúsnæðis hækkað um 10-21% á ári og var 16,6% á árinu 2017. Mest hafi verslunar- og skrifstofuhúsnæði hækkað en einnig hafi verið töluverðar hækkanir á vörugeymslum og sérhæfðu húsnæði. Þá hafi verð á gistirými hækkað talsvert en vegna ósamfelldrar verðmyndunar sé túlkun erfið. Iðnaðarhúsnæði hafi að því er virðist hins vegar ekki hækkað mikið í verði.

Lítil aukning á öðru en gistirýmum

Í ritinu segir einnig að á síðustu árum hafi talsvert verið byggt af hótelum og margs konar húsnæði verið breytt í gistirými. Á sama tíma hafi framboð annars atvinnuhúsnæðis lítið aukist. Samkvæmt tölum úr fasteignaskrá jókst umfang skráðs hótel- og gistirýmis, í fermetrum talið, um 73% á árunum 2011 til 2017 og bróðurpartur þeirrar aukningar varð á síðustu þremur árum. Á sama tíma jókst umfang annars atvinnuhúsnæðis einungis um 6% og þá einkum iðnaðarhúsnæðis. Ólíkt íbúðarhúsnæði er mikið af atvinnuhúsnæði byggt að beiðni og eftir þörfum kaupanda og er ekki auglýst á almennum markaði sem nýbyggingar. Tölur frá fasteignavef mbl.is sýna þó að atvinnuhúsnæði sem auglýst er til sölu í hverjum mánuði fækkaði frá miðju ári 2014 fram á mitt ár 2017 og hefur ekki fjölgað mikið síðan. Það er til marks um að framboð hafi ekki vaxið í takti við eftirspurn yfir tímabilið.

Útlán og aðrar kröfur viðskiptabanka með veði í atvinnuhúsnæði námu 834 milljörðum króna í árslok 2017 eða 32% af heildarútlánum innlánsstofnana.