Helga Valfells stofnaði ásamt samstarfskonum úr Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins fjárfestingarsjóðinn Crowberry Capital. Þær hafa mikla reynslu úr nýsköpun og stefnir sjóðurinn á að fjárfesta í tíu til tólf nýsköpunarfyrirtækjum á næstu árum. Eitt af því sem gerir sjóðinn sérstakan er áhersla á að styðja vel við fyrirtæki sem ganga vel en halda ekki uppi fyrirtækjum sem ná ekki að blómstra. Hún segir íslenska fótboltalandsliðið hafa skipt miklu máli í markaðssetningu nýsköpunarfyrirtækja og að frumkvöðlar vanmeti oft mikilvægi markaðsstarfs.

Helga tók ákvörðun í lok síðasta árs að segja starfi sínu lausu og vinna að stofnun fjárfestingarsjóðsins Crowberry Capital ásamt Heklu Arnardóttur og Jennýju Ruth Hrafnsdóttur. Við stofnun sjóðsins fóru þær allar úr störfum hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins (NSA), þar sem Helga gegndi starfi framkvæmdastjóra. Sjóðurinn var formlega stofnaður í júlí á þessu ári og hefur úr fjórum milljörðum að moða eins og er en markmiðið í annarri lotu er að afla milljarðs til viðbótar. Helga er ekki nýgræðingur þegar kemur að nýsköpun. Hún er alin upp í Bandaríkjunum og hefur varið hálfri ævinni utan landsteinanna. Frá unga aldri var henni kennt að tækni og vísindi væru það sem myndi bjarga heiminum.

„Það er kannski þess vegna sem ég enda í þessu starfi sem ég er í.“ Fjölskylda Helgu flutti til Íslands þegar hún var þrettán ára en Helga fór aftur til Bandaríkjanna til að læra efnafræði við Harvard-háskóla. „Ég byrjaði í efnafræði en óttaðist að ég myndi bara enda inni á einhverri tilraunastofu þannig að ég fór þá í hagfræði og enskar bókmenntir.“

Að námi loknu flutti hún svo aftur til Íslands árið 1988 og starfaði hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka. Þaðan lá leiðin til Rauða krossins þar sem hún fór til Gíneu sem sendifulltrúi. Í MBA-námi á Englandi kynntist hún eiginmanni sínum og bjó því níu ár í Lundúnum þar sem hún vann hjá fjárfestingarbanka

„Þegar við eignuðumst fyrsta barnið okkar 1997 ákváðum við að prófa að búa á Íslandi í eitt ár í kringum aldamótin. Fyrst eftir að ég kom heim var mér boðið starf í bönkunum, en mér fannst þeir dálítið skrýtnir á þeim tíma. Ég hefði örugglega átt að taka starfinu því þá væri ég örugglega miklu efnaðri í dag,“ segir Helga og hlær.

„Ég fór hins vegar að vinna fyrir Útflutningsráð. Þar kynntist ég nýsköpun fyrir alvöru og fann mig í því. Þá var allt að gerast og ég tók við verkefni af Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem var kallað Venture Iceland, sem var svolítið eins og Icelandic Startups er í dag.“ Þar var Helga til ársins 2005 þegar hún fór í eigin rekstur. 2007 tók hún frí frá störfum í tvö ár og flutti aftur til Lundúna. Fjölskyldan kom aftur heim í byrjun árs 2009 þegar eftirhrunsskjálftarnir voru í algleymingi.

„Þá sótti ég um starf hjá NSA. Mér fannst nýsköpun auðvitað mjög skemmtileg en í janúar 2009 var það eina starfið sem var auglýst á þessum tíma.“ Einhver bið varð þó á því að hún hæfi störf hjá Nýsköpunarsjóði því sama dag og hún sótti um var haft samband við hana og henni boðin staða aðstoðarmanns Gylfa Magnússonar, sem þá hafði nýlega tekið við sem viðskiptaráðherra. „Ég var því ópólitískur aðstoðarmaður ópólitísks ráðherra í hálft ár.“

Mikilvægt að ríkið styðji en keppi ekki við einkageirann

Þegar Helga og stofnendur Crowberry létu af störfum hjá NSA var sjóðurinn fullfjárfestur. „2015 fjárfesti NSA í Sólfari, sem var síðasta fjárfesting hans. Þá voru líka aðrir sjóðir að koma fram, Brunnur, Frumtak II og Eyrir Sprotar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ríkið keppi ekki við einkageirann í þessu heldur styðji frekar við hann eins og gert er í Evrópu. Þá höfðum við verið í stefnumótun hjá sjóðnum sem leiddi til þess 2014 að það var ákveðið að NSA yrði sjóðasjóður. Okkar þekking liggur frekar í að fjárfesta beint í fyrirtækjum þannig að við vildum halda því áfram.“ Þegar Helga hins vegar hóf störf hjá NSA árið 2010 var sjóðurinn eini sjóðurinn sem fjárfesti í nýsköpunarfyrirtækjum á fyrstu stigum með svokölluðu sprotafé (e. seed money).

„Verkefnið var mjög mikið að koma eignasafni sjóðsins í vinnu. Við fórum gegnum þrettán „exit“ með sjóðnum, sem ég lærði mjög mikið af. Á þeim tíma fórum við í sextán nýfjárfestingar í fyrirtækjum á borð við GreenQloud og Mint Solutions sem standa vel í dag. Sum þessara sextán gengu hins vegar ekki upp. Það var þá sem sú aðferðafræði kom upp sem við ætlum að nota hjá Crowberry – að vera fljót að loka því sem gengur ekki vel og byggja undir það sem gengur vel. Það er markmiðið okkar með sjóðnum. Hjá NSA seldum við fyrirtæki fyrir þrjá og hálfan milljarð á tímabilinu 2010 til 2017 og við fjárfestum fyrir þrjá og hálfan milljarð þannig að þetta var algjörlega sjálfbært. Af þeim fóru einn og hálfur í ný fyrirtæki og tveir í fyrirtæki sem voru þegar í eignasafni NSA. Það er skemmtilegt að segja frá því að hagnaðurinn af sölunni á fjórum nýjum fyrirtækjum, Clara, Kerecis, GreenQloud og Videntifier, borguðu fjárfestinguna í öllum sextán fyrirtækjunum. Þannig að nú eru fyrirtæki sem eru ennþá í vexti sem skila NSA hagnaði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .