„Hátt verð á þessum stöðum flæmir Íslendinga að sjálfsögðu frá, því að launin hafa lítið hækkað,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við Vísi , spurður um fréttaflutning af okurverði á ferðamannastöðum. En í ljós hefur komið að ferðamenn virðast lítið kippa sér upp við verðlag hér á landi.

Hann segir að verðlag virki frekar ódýrt þegar menn til dæmis koma með evrur til landsins. „Ef krónan væri jafnsterk og hún var 2007 og við værum með sama verðlag þá liggur það alveg fyrir að erlendir ferðamenn væru mjög óánægðir. Við flótum á genginu. En það gera Íslendingar ekki og þurfa þar af leiðandi að halda að sér höndum.“ Að hans mati borgar sig frekar að hafa hóflegt verðlag þegar til lengri tíma er litið.

Jóhannes bendir á að viðbrögð þjónustustúlku sem afgreiddi súkkulaðiköku í Vogafjósi á tæpar 1300 krónur segi okkur aðeins eitt: „Það segir okkur að Íslendingar eru farnir að forðast þessa staði af því að þeir vita hvernig verðlagið er.“ En téð þjónustustúlka svaraði því hvort verð á kökunni gæti staðið á þann veg að það kæmu aldrei Íslendingar á þennan stað.