Ólafur Áki Ragnarsson hefur verið ráðinn sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps og mun hefja störf 01. september næstkomandi. Alls bárust 19 umsóknir um starfið en tveir drógu umsóknir sínar til baka. Þetta kemur fram í frétt á vef Vopnafjarðarhrepps.

Ólafur Áki á að baki farsælan feril í sveitarstjórnarmálum, en hann var sveitarstjóri Búlandshrepps/Djúpavogshrepps í sextán ár og bæjarstjóri í sveitarfélaginu Ölfusi í átta ár. Hann hefur starfað hjá Þróunarfélagi Austurlands síðastliðin fjögur ár og síðar Austurbrúar ses og séð þar m. a. um málefni sveitarfélaga á Austurlandi. Ólafur Áki hefur því yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af málefnum sveitarfélaga og er gjörkunnugur atvinnusvæði Austurlands.

Ólafur Áki hefur einnig setið í fjölmörgum nefndum og ráðum og má þar meðal annars nefna setu hans í stjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, samgöngu- og stóriðjunefnd á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og stjórn Héraðsskjalasafns Austurlands. Hann hefur einnig setið í fulltrúaráði Sambands íslenskra sveitarfélaga.