Ólafur Garðarsson, stjórnarmaður í slitastjórn Kaupþings, mun hætta í stjórninni eftir næsta kröfuhafafund bankans sem haldinn verður 13. apríl næstkomandi. Ólafur tilkynnti slitastjórn og skilanefnd Kaupþings um þessa ákvörðun sína um miðjan febrúar. Hann mun koma þeim málum sem hann hefur unnið að í aðrar hendur á næstu vikum og hverfa síðan til fyrri starfa hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur þar sem hann er á meðal eigenda.

Vanrækti fjölskylduna

Ólafur segir ástæðu þess að hann ætlar að hætta ekki vera neitt leyndarmál. „Þegar ég tók þetta að mér í byrjun þá töldu menn að slitin myndu taka 6-9 mánuði. Síðan eru liðin tvö og hálft ár. Á þeim tíma hef ég algjörlega vanrækt viðskiptavini mína hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur og margir þeirra eru farnir eitthvað annað. Ég hef einnig vanrækt fjölskyldu mína.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðað hér að ofan undir liðnum Tölublöð.