Listamaðurinn Ólafur Elíasson hefur, ásamt verkfræðingnum Frederik Ottesen, hafið söfnun á Kickstarter til framleiðslu á símhleðslutæki sem gengur fyrir sólarorku. Breska tímaritið Wired fjallar um söfnunina á vefsíðu sinni í dag.

Þeir félagar hafa sett sér það að markmiði að safna 50 þúsund dölum. Núna, þegar 31 dagur er eftir af söfnunni, eru þeir hins vegar komnir langleiðina að markmiðinu og hafa safnað 43.650 dölum, jafnvirði 5,7 milljóna íslenskra króna.

Þessi dansk/íslenski listamaður hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, en á síðasta ári var hann á meðal 100 áhrifamestu manna listheimsins að mati listtímaritsins Art Review. Sat hann þá í 88. sæti listans. Var þá einmitt vísað til Little Sun verkefnis Ólafs, sem hann vann í samstarfi við Frederik, og snerist um framleiðslu og sölu á sólarknúnum lömpum sem seldir voru ódýrir í löndum með ónægt aðgengi að rafmagni.

Hægt er að leggja nýju verkefni þeirra félaga lið hér .

Myndband um verkefnið: