Ólafur Jóhannsson hefur verið ráðinn sjóðstjóri hjá Landsbréfum og mun hann hefja störf á næstu vikum. Ólafur verður sjóðstjóri á sviði hlutabréfastýringar Landsbréfa.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbréfum að Ólafur hefur víðtæka reynslu sem ráðgjafi og umtalsverða reynslu af störfum á fjármálamörkuðum. Frá árinu 2009 hefur Ólafur starfað sem ráðgjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu Expectus í verkefnum sem tengjast m.a. kaupum og sölum á fyrirtækjum, fjárhagslegri áreiðanleikakönnun og verðmati og komið að stefnumótun fjölmargra fyrirtækja.  Ólafur var jafnframt einn eigenda Expectus.

Á árunum 2007 til 2008 starfaði Ólafur sem sjóðstjóri hjá Kaupþingi með áherslu á innlenda hlutabréfasjóði og hlutabréfastýringu fyrir lífeyrissjóði. Á árunum 2002 til 2007 starfaði Ólafur sem ráðgjafi í upplýsingatækni og fjármálum hjá Capacent.

Ólafur er með M.Sc. gráðu í Corporate Finance frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. í Viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann er jafnframt stundakennari við Háskólann í Reykjavík þar sem hann kennir rekstrargreiningu.