Árið 2010 var mun betra fyrir Ísland heldur en flestir bjuggust við. Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson forseti í viðtali við BBC World Service. Hann sagði að vissulega hafi Ísland átt betri ár og benti á eldgosið í Eyjafjallajökli og þá staðreynd að íslenskt fjármálakerfi reyni nú að komast á skrið eftir fall þess.

„En 2010 var mun betra fyrir Ísland en flestir bjuggust við,“ sagði Ólafur Ragnar. Hann benti á að öll kynning sé góð kynning og að öskuský eldgossins hafi komið Íslandi á kortið. Þá hafi fall krónunnar gert að verkum að mun ódýrara er að ferðast til landsins en áður.