Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sendi Jacob Zuma, forseta Suður-Afríku, í morgun samúðarkveðjur sínar og íslensku þjóðarinnar vegna andláts Nelsons Mandela, fyrsta lýðræðislega kjörna forseta Suður-Afríku.

Í kveðjunni minnist Ólafur Ragnar friðsamlegrar og árangursríkrar mannréttindabaráttu sem Mandela veitti forystu og hafði djúpstæð áhrif um allan heim. Nelson Mandela markaði djúp spor í baráttunni fyrir jafnrétti allra manna og verður minnst fyrir óbilandi kjark, ríka réttlætiskennd og mannúð.