Bresku blöðin The Daily Telegraph og The Observer birtu um nýlega greinar með viðtölum við hr. Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Í fyrrnefnda blaðinu, The Daily Telegraph, er forsetinn sagður hafa líkt sjálfum sér við forstjóra vel rekins fjárfestingasjóðs.

Í viðtalinu er Ólafur Ragnar sagður hafa sagt að ef Warren Buffet geti rekið sjóði fyrir milljarða dollara með aðeins 17 manns í vinnu, geti hann sjálfur það líka. "Sumir bestu vina minna í Bandaríkjunum eins og Steve Schwarzman [forstjóri] Blackstone stofna hvern sjóðinn á fætur öðrum fyrir 10 milljarða, fyrir 15 milljarða dollara. Vandamálið er ekki skortur á fjármagni. Vandamálið fyrir banka er að finna alvöru viðskiptatækifæri sem eru góð og sönn og ný. Nokkrir Íslendingar hafa boðið þeim þessi tækifæri," hefur blaðið eftir Ólafi, sem vísar í viðtalinu á bug vangaveltum um að fjármagn íslensku fjárfestanna komi frá Rússlandi á vafasaman hátt.

Ólafur segir í viðtalinu: "Mundu, að Ísland er eina landið sem borið hefur sigurorð af breska flotanum, ekki bara einu sinni heldur þrisvar sinnum. Þegar maður er fastur úti á ballarhafi hefur maður trú á að allt sé mögulegt."

Fjallað er um síaukin umsvif Íslendinga í Bretlandi í greininni og sagt að fram til júnímánaðar hafi þeir fjárfest fyrir 1,8 milljarða punda í breskum fyrirtækjum, eða sem nemi 6.000 pundum á Íslending -- 640 þúsundum íslenskra króna. Vitnað er í varaformann stjórnar Bakkavarar, Tony Yerolemou: "Allir segja að þetta séu rússneskir peningar. En meirihluti fjármagnsins í öllum þessum samningum kemur frá breskum bönkum. Það var Barclays-bankinn sem studdi samning okkar um að kaupa Geest [fyrir 485 milljónir punda] fyrr á þessu ári."

Í grein í The Observer er sagt að forsetinn sé "toppfígúra" [e. "figurehead"] "einnar kraftmestu fjárfestingarvélar heims". Ólafur útskýrir útrás íslenskra fyrirtækja: "Þegar við lítum á Flórens endurreisnartímabilsins, Feneyjar endurreisnarinnar og jafnvel Róm til forna og Aþenu til forna, [sjáum við] að þau voru af svipaðri stærð og Ísland er núna. Það er mikilvægur lærdómur af sögunni að lítil og skapandi samfélög geta komið stórkostlegum hlutum í framkvæmd," segir hann í samtali við The Observer.