Rúmlega sextán milljónir króna söfnuðust til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í sérstöku átaki Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar. Átakið  fólst í því að 10 krónur af hverri seldri flösku og dós af Malti rann beint til félagsins í tilefni af 100 ára afmæli fyrirtækisins.

Átakinu lauk um áramótin og í dag afhentu Októ Einarsson, stjórnarformaður og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar, Herði Má Harðarsyni, formanni Slysavarnafélagsins Landsbjargar afraksturinn, 16.221.120 krónur.

„Við þökkum að sjálfsögðu Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni kærlega fyrir styrkinn og stuðninginn og þökkum landsmönnum einnig fyrir að hafa styrkt okkur með því að drekka Malt. Féð kemur að góðum notum við björgunar- og hjálparstörf,“ segir Hörður Már.

„Salan gekk vel og við náðum settu marki. Íslendingar drekka Malt og að þessu sinni ekki bara bragðsins vegna, heldur líka góðs málefnis. Það var ánægjulegt að afhenda Slysavarnafélaginu Landsbjörg þessa gjöf,“ segir Andri Þór.