Olíuverð hækkaði sjötta daginn í röð og náði nýjum hæðum í New York í dag þegar verðið fór í 54,45 dollara fyrir tunnuna í kjölfar nýrrar skýrslu Alþjóða Orkumálastofnunarinnar (IEA). Stofnunin gerir ráð fyrir að olíunotkun vaxi um 3,4% í heiminum á árinu og verði 82,4 milljónir tunna. Athyglisvert er að stofnunin hefur aukið eftirspurnarspá sína í hverjum einasta mánuði síðan í nóvember 2003. IEA gerir ráð fyrir að hægja muni á vexti eftirspurnar á næsta ári vegna hækkandi olíuverðs.

Olíufréttir hafa verið áberandi í fjölmiðlum upp á síðkastið og fréttamenn vitna oft í ýmsa sérfræðinga og ástæður þær sem þeir kalla til úttskýringar á sífellt hækkandi olíuverði eða fyrir því að verðið sé of hátt. Þar skjóta sömu ástæðurnar oft upp kollinum og markaðurinn virðist mjög viðkvæmur fyrir neikvæðum fréttum. Til að mynda hefði mátt ætla að ummæli frá yfirmanni Alþjóða orkumálastofnunarinnar, Claude Mandil, sem um að nóg væri af olíu á markaði og ekki væri útlit fyrir olíuskort í nánustu framtíð, hefðu átt að róa markaðinn. Svo var þó ekki og hefur olíuverð haldið áfram að hækka. Auk nýjustu spár Alþjóða orkumálastofnunarinnar hafa aðrar fréttir, s.s. fjögurra daga verkfall í Nígeríu, sem verkalýðsfélög þar segja þó að muni ekki hafa áhrif á olíframleiðslu í landinu, og nýjar fréttir um að fellibylurinn Ivan hafi valdið lengri framleiðslusamdrætti í Mexíkóflóa en gert var ráð fyrir, verið tíundaðar sem ástæður fyrir síðustu hækkunum.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.