Eignir íslenskra lífeyrissjóða eru sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sem fyrr með því hæsta sem þekkist meðal ríkja OECD samkvæmt tölum frá stofnuninni. Hlutfallið var 151% í lok síðasta árs og eru Danmörk (209%), Holland (182%) og Kanada (159%) einu löndin innan OECD þar sem hlutfallið er hærra. Á eftir Íslandi koma svo Sviss (142%) og Ástralía (124%) Þegar litið er til hlutfalls erlendra eigna innlendra lífeyrissjóða í samanburði við önnur lönd er staða Íslands þó býsna ólík. Í lok árs 2017 var hlutfallið 24,4% en var sem dæmi 28,7% í Danmörku, 81,3% í Hollandi og 32,9% í Sviss. Miðað við umfang erlendra fjárfestinga íslensku lífeyrissjóðanna á þessu ári má þó gera ráð fyrir að hlutfallið verði eitthvað hærra í lok þessa árs. Flestir sjóðanna hafa sett sér markmið um að auka hlutfall erlendra eigna í 35-40% á næstu árum. Eru meginrökin á bak við auknar fjárfestingar erlendis meðal annars áhættudreifing.

Innlendir fjárfestingakostir eru takmarkaðir auk þess sem fjárfestingu í erlendum eignum fylgir ákveðin verðbólguvörn þar sem sögulega er mikil fylgni á milli gengisþróunar og verðbólgu. Til þess að ná framangreindum hlutföllum er þó ljóst að lífeyrissjóðirnir þurfa að að halda áfram að fjárfesta fyrir um 100 milljarða króna á næstu fimm til sjö árum til þess að koma hlutfalli erlendra eigna í 35-40%.

Langstærstur hluti í hlutabréfum

Í kynningu á vegum Íslandsbanka um erlendar eignir lífeyrissjóðanna, sem bankinn hélt í tilefni af 20 samstarfsafmæli við bandaríska sjóðastýringarfyrirtækið Vanguard, kom meðal annars fram að töluverður munur er á milli þess í hvaða eignaflokkum innlendir lífeyrissjóðir hafa verið að fjárfesta í á erlendri grundu. Yfir 90% af eignum sjóðanna eru þó í hlutabréfum en mismunandi er hvaða leiðir lífeyrissjóðirnir hafa kosið að fara við stýringu þeirra.

Virk hlutabréfastýring stendur fyrir 54% af eignum sjóðanna en undir hana falla sérgreind hlutabréfasöfn, stök hlutabréf og virkir hlutabréfasjóðir. Jókst hlutfallið lítillega frá 2015 þegar það var 52,3%. Eins og áður segir er töluverður munur milli hágildis og lággildis hlutfalls eignaflokka meðal sjóðanna. Sérgreind söfn eru á bilinu 0-33%, vegið meðaltal þeirra er 11,9% en var 15% árið 2015. Stök hlutabréf eru á bilinu 0-28% en vegið meðaltal þeirra er þó einungis 2,4% úr 1% árið 2015. Virkir hlutabréfasjóðir eru eini eignaflokkurinn þar sem allir lífeyrissjóðir eru með stöður í en hlutdeild þeirra er á bilinu 12-71% en vegið meðaltal var 39,7%. Vegið hlutfall eigna í vísitölusjóðum var 29,4% og jókst um 4,4% frá 2015. Hlutfallið var hins vegar á bilinu 0-73% meðal lífeyrissjóðanna. Framtakssjóðir sem fjárfesta aðallega í óskráðum hlutbréfum stóðu fyrir 11,2% af erlendum eignum en hlutfallið var 19% fyrir 2015. Hlutfall þeirra var á bilinu 0-31%. Hlutfall skuldabréfasjóða var 4,5% en var 1% árið 2015 á meðan hlutfallið var á bilinu 0-11%. Aðrar eignir stóðu svo fyrir 0,8% af eignum sjóðanna en voru 5% árið 2015.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .