„Ný stjórn hefur ekki tekið fyrir hvenær hálfsársuppgjör verður gefið út eða hvort það verður opinbert,“ segir Ragnar Þórir Guðgeirsson, nýr stjórnarformaður MP banka í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann á síður von á að uppgjörið verði opinbert, en bankinn er ekki skyldugur til þess. Hingað til hafa uppgjörin verið opinber.

Aðspurður um hlutafjáraukningu segir Ragnar að ný stjórn sé að setja sig inn í það mál. Frestur stjórnar til aukningar hlutafjár rann út í júní síðastliðnum en hann hefur nú verið framlengdur.

„Við höfum verið að skoða hvaða möguleikar eru í boði við fjármögnun framtíðarvaxtar bankans. Við erum einnig að skoða skiptingu bankans í viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.“

Að sögn Ragnars er hlutafjárútboð tengt skiptingu bankans.