Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær tók Benedikt Jóhannesson undir með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna sem beindi fyrirspurn til fjármálaráðherra með þessum orðum:

„Þessi tala er væntanlega ekki tilviljun, að eignarhluturinn miðast við hana.“ Þetta kemur fram í frétt Vísis.

Átti Katrín þar við að sjóðirnir sem keyptu hlut í Arion banka héldu hlut sínum undir 10% viðmiðunarmarkið sem Fjármálaeftirlitið miðast við þegar það skoðar hvort eigendur séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum hér á landi.

Geta skoðað þó sé undir 10%

„Ég tek undir það að það er mjög ólíklegt að talan 9,99 sé tilviljun og ég vil líka taka undir það að það er afar mikilvægt að vita um það hverjir eru endanlegir eigendur, hverjir eiga þessa sjóði sem um ræðir,“ sagði Benedikt.

„[Þ]ó að almenna reglan sé að það sé miðað við 10 prósent eignarhald þá getur fjármálaeftirlitið, ef eignarhald er til dæmis dreift, horft á aðila sem eiga verulegan eignarhlut eða eignarhlut sem er líklegur til að vera ráðandi sérstaklega, þó tölunni 10 prósent sé ekki náð.“