Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði í dag fram fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra um söfnunarútsendingar í Ríkisútvarpinu.

Ólína vill fá svör við því hvaða reglur gilda hjá RÚV um það hvaða félagasamtök eigi kost á söfnunarútsendingum í sjónvarpi eða útvarpi, þar sem fjár er aflað. Þá vill hún að upplýst verði hvaða góðgerða- og mannúðarfélög hafi fengið slíkar útsendingar frá því að útsendingar hófust, hvaða sjónarmið hafi ráðið för í valinu og hver kostnaður Ríkisútvarpsins hafi verið af söfnunarútsendingum síðustu fimm ár.

Fyrr í september var söfnunarútsending fyrir Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, á RÚV.