Olíufélögin hækkuðu lítraverð á eldsneyti í morgun um fimm til sex krónur. Algengt verð á bensínlítra er nú um um 231,9 krónur. Algengt verð á lítra af díselolíu er um 236,6 krónur.

ÓB hækkaði verð um 6 krónur í morgun og kostar lítri af 95 oktana bensíni þar 231,7 krónur samkvæmt upplýsingum á Keldan.is. Aðrar stöðvar hafa einnig hækkað verð hjá sér. Hjá N1 og Olís hækkaði verð einnig um sex krónur og er 0,2 og 0,1 krónum hærra en hjá ÓB. Sama lítraverð er á bensínstöðvum Shell.

Atlantsolía hefur ekki hækkað verð hjá sér en að sögn Guðrúnar Rögnu Garðarsdóttur, framkvæmdastjóra Atlantsolíu, mun verð hækka þar í dag. Ekki hafði verið tekin ákvörðun um hver sú hækkun yrði þegar Viðskiptablaðið náði tali af henni. Aðspurð um frekari hækkanir sagði hún ómögulegt að spá fyrir um slíkt.