Þátt fyrir mjög sterkan grun um gas og olíu á landgrunninu við Norðausturland hefur það lítt verið rannsakað. Kristján Þór Júlíusson 4. þingmaður Norðausturkjördæmis, er fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi sem lögð var fram nú í byrjun febrúar.

„Það er ákveðinn vilji til að gera þetta, en ég held að það vanti í raun bara að taka ákvörðun. Forgangsröðunin var að keyra á Drekasvæðið og láta þetta bíða. Ef það hefur einhvern tíma verið ástæða til að leggja í rannsóknir á mögulegum verðmætum af þessum toga, þá er það núna," segir Kristján.

Meðflutningsmenn hans að tillögunni eru Ásbjörn Óttarsson, Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson og er tillagan svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að tryggja að nú þegar verði hafnar markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á landgrunni Ísland undan Norðausturlandi. Leitað verði samstarfs við erlenda aðila um rannsóknir eftir því sem við á og við staðarval verði stuðst við fyrri rannsóknir."

Vantar ákvörðun um „Gamminn"

Kristján Þór sagði í samtali við Viðskiptablaðið að sér fyndist einbúið að ganga til þessa verks. Þarna er m.a. um að ræða Tjörnesbrotabeltið, en mögulegt olíusvæði þar hefur verið nefnt Gammur með tilvísun í landvættina og Drekasvæðið við Jan Mayen.

„Það liggja fyrir ákveðnar niðurstöður úr rannsóknum sem var hætt 2004. Þar eru menn m.a. með borholu í Flatey (1981) sem hætt var við þegar hún var komin niður á 554 metra. Menn telja aftur á móti að það þurfi að fara niður á 2.000 metra til að komast niður á setlög. Það liggur líka fyrir að það var leitað tilboða á árunum 2003 til 2204 í að ná upp sýnum af gasi og lífrænum efnum af svæðinu. Mat manna er því að það sé eitthvað að finna þarna, en það skortir frekari rannsóknir." Kristján segist vona að menn leggi fjármuni í slíkar rannsóknir enda hafi iðnaðarráðherra áhuga á málinu.

Greinargerð væntanleg

Kristinn Einarsson, yfirverkefnastjóri auðlindamála hjá Orkustofnun, segir Tjörnesbrotabeltið í athugun hjá stofnuninni. Það mun á næstu dögum koma út greinargerð um þær rannsóknir sem þar hafa verið framkvæmdar út af Öxarfirði og Skjálfanda og yfir í Eyjafjarðarál. Þetta er hlutur sem við erum með í rannsókn. Ég geri síðan ráð fyrir að við styrkjum meistaranema við HÍ í að skoða betur gögn sem erlendir vísindamenn hafa safnað varðandi svæðið. Það er þó ekkert átak í gangi varðandi frekari rannsóknir. Hins vegar höldum við að það sé kannski skjótari árangurs að vænta á Drekasvæðinu og líka eftir meiru að slægjast.

Varðandi olíuleitaráform á Drekasvæðinu sem olíuleitarfyrirtækin drógu sig út úr á síðasta ári séu yfirvöld enn opin fyrir að taka við umsóknum samkvæmt sömu skilmálum og voru í útboðinu í fyrravor.

„Síðan erum við að undirbúa okkur fyrir að geta komið með nýtt útboð sem vonandi verður á næsta ári." Segist Kristinn ekki geta sagt til um hvort skilmálum í því útboði verði breytt frá því sem nú gilda. „Við höfum verið að ræða við olíufélögin. Við vitum að þau hafa áhuga, en þetta er bara spurning um kreppuna á erlendum peningamarkaði. Ætlunin er að vera í stöðugu sambandi við olíuiðnaðinn til að vita hvernig við getum hagað okkur," segir Kristinn.