Heimsverð á hráolíu hefur lækkað nokkuð síðustu daga og um tíma í dag fór verð á tunnuna af hráolíu undir 70 Bandaríkjadali á mörkuðum í New York.

Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja miklar lækkanir til góðrar birgðastöðu Bandaríkjamanna en hún jókst um 5,6 milljónir tunna í síðustu viku sem er talsvert yfir væntingum greiningaraðila sem gert höfðu ráð fyrir um 2 milljóna tunna aukningu.

Olíuverð hefur því ekki verið lægra frá því í ágúst á síðasta ári. Þegar þetta er skrifað, kl. 17:15 að íslenskum tíma kostar tunnan 70,3 dali á mörkuðum í New York.

Í júlí síðastliðnum kostaði tunnan af hráolíu 147 dali á mörkuðum í New York.