Heimsmarkaðsverð á olíu hefur farið hækkandi síðustu daga og er nú svo komið að Brent hráolíuverð á markaði í London er komið yfir 50 dollara, en á markaði í New York er verðið hins vegar komið yfir 52 dollara. Olíuverð hefur ekki verið hærra síðan í lok október á síðasta ári. Hækkunin er rakin til þess að búist er við slæmu veðri á norðausturströnd Bandaríkjanna. Slæmt veðurfar eykur eftirspurn eftir olíu til húshitunar en að mati sérfræðinga er olíumarkaðurinn sérstaklega viðkvæmur fyrir breytingum í eftirspurn um þessar mundir segir í Vegvísi Landsbankans.

"Einnig ríkir töluvert óvissa hvað framboðshliðina varðar, en leiðtogar OPEC ríkjanna koma saman um miðjan næsta mánuð á fundi þar sem framleiðslukvóti OPEC verður ákveðinn. Talið er líklegra að á fundinum verði ákveðið að draga úr olíuframleiðslu fremur en að framleiðslan verði aukin. Slík ákvörðun er líkleg til að valda frekari hækkun olíuverðs og því líkur á því að hagkerfi heimsins þurfi áfram að lifa við hátt olíuverð á næstunni," segir í Vegvísi.

Hækkun á bensínverði í sjónmáli?

Í Vegvísinum erv bent á að í íslenskum krónum var heimsmarkaðsverð á olíu að meðaltali um 2% hærra í febrúar en það var í janúar. Olíufélögin hafa hins vegar ekki hækkað eldsneytisverð frá því um miðjan janúar og því ljóst að líkur eru á því að eldsneyti verði hækkað á næstunni. Hækki eldsneytisverð á næstu tveimur dögum mun það því hafa áhrif til hækkunar vísitölu neysluverðs í mars. Verði það raunin verður verðbólguspá Greiningardeildar endurskoðuð til hækkunar, en eins og staðan er í dag gerum við ráð fyrir 0,9% hækkun vísitölunnar milli mánaða.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.