Olíuverð náði ríflega tveggja ára hápunkti í gær. Er hækkunin sögð vera keyrð áfram af aukinni bjartsýni í heimshagkerfinu í kjölfar þess að bólusetningar eru komnar á fullt skrið í iðnríkjum heimsins. Reuters greinir frá.

Verð Brent olíu fór yfir 73 dali á hverja tunnu og hefur ekki mælst hærra frá því í apríl árið 2019. Þá hækkaði verð WTI olíunnar að sama skapi og nam 71 dal. Hefur verðið ekki farið hærra frá því í október 2018.

Umferð vélknúinna ökutækja í Norður-Ameríku og Evrópu nálgast það að komast í sama horf og fyrir COVID-19 heimsfaraldurinn. Þá er flugumferð smátt og smátt að aukast. Þar með eykst eftirspurn eftir olíu smátt og smátt. Aukin eftirspurn hefur skilað sér í því að olíuverð hefur farið hækkandi undanfarnar þrjár vikur.