Verð á bandarískri olíu hefur ekki verið lægra síðan 1999, en kórónuveiran hefur valdið því að eftirspurn eftir olíu hefur dregist verulega saman. Framleiðslu hefur þó verið haldið áfram og er ástandið í landinu orðið þannig að geymslupláss undir olíutunnur er að verða á þrotum. BBC greinir frá.

Verð á hverja tunnu af West Texas Intermediate (WTI), sem er viðmiðið er talað er um bandaríska olíu, féll um 19,3% í dag, niður í 14,74 dollara á tunnu.

Olíuiðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar á tímum kórónuveirufaraldursins. Líkt og fyrr segir hefur eftirspurn dregist verulega saman, en auk þess hefur verðstríð milli Sádí Araba og Rússa bætt gráu ofan á svart.