Heimsmarkaðsverð á olíu féll töluvert í kjölfarið af fréttum þess efnis að helstu olíuríkjum heims hefði ekki tekist að koma sér saman um þak á olíuframleiðslu og útflutningi á fundi í Katar í gær.

Þegar mest var féll verð á Brent hráolíu um 7% en hækkaði þó þegar leið á daginn. Verð á olíutunnunni er nú um 41,23 bandaríkjadollari.

Fulltrúar flestra OPEC ríkjanna voru viðstaddir fundinn sem beðið var með mikilli eftirvæntingu. Enginn sat þó fundinn fyrir hönd Írans, en stjórnvöld í Teheran höfðu lýst því yfir að þau myndu ekki samþykkja framleiðslutakmarkanir á meðan framleiðsla þeirra væri innan við það sem hún var áður en Vesturveldin hófu refsiaðgerðir gegn landinu.

Eftir löng fundarhöld birtust loks fulltrúar ríkjanna og lýstu því yfir að olíuframleiðendur þyrftu meiri tíma og að ekkert samkomulag lægi fyrir. Sérfræðingar BBC telja að niðurstaða fundarins munu hafa í för með sér enn frekari lækkun á olíuverði á komandi dögum.