Óljóst er hvort þær skuldir sem íslenska ríkið hefur tekið á sig í kjölfar bankahrunsins séu sjálfbærar til framtíðar, að mati James Roaf, sérfræðings hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en hann hefur tekið saman skýrslu um viðbrögð sjóðsins við fjármálakreppu undanfarinna ára. Í viðtali við Roaf sem birtist á heimasíðu sjóðsins kemur fram að í flestum þeirra ríkja sem leita þurftu á náðir AGS sé efnahagsbati nú hafinn.

Roaf segir Ísland og Írland vera í svipaðri stöðu hvað varðar skuldir hins opinbera en bæði hafi ríkin verið fremur skuldlítil áður en kreppan skall á. Ennfremur segir hann sjóðinn hafa lagt áherslu á að velferðarkerfi þeirra ríkja sem sóttu um aðstoð hafi fengið að vera nánast óskert til þess að draga úr falli þeirra verst settu og nefnir Ísland í því samhengi en hér hafi sjálfvirkir sveiflujafnarar fengið að virka sem þeim er ætlað.

Hann segir Ísland mest áberandi dæmið um notkun hafta á fjármagnsflæði í kjölfar kreppunnar en löndin hafi þó verið fleiri sem færðu sér þetta úrræði, sem ekki hefur áður verið hluti af aðferðum AGS, í nyt.

Leiðrétt 19. apríl 2011:

James Roaf leiðréttir ummæli sín um Ísland. Sjá hér .