Seðlabanki Íslands segir óljóst hvenær skýrsla um Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) verði tilbúin samkvæmt svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Skýrslan átti upphaflega að koma út árið 2018 en útgáfu hennar hefur ítrekað verið seinkað. Fyrir tveimur árum bar Seðlabankinn við að vinnu skýrslunnar myndi seinka vegna heimsfaraldursins.

ESÍ var falið að halda utan um og selja eignir sem Seðlabankinn fékk í fangið í kjölfar bankahrunsins. Áætlað virði eignanna nam hátt í 500 milljörðum króna en ESÍ var slitið undir lok árs 2017.

Seðlabankinn hefur m.a. borið fyrir sig bankaleynd og persónuverndarlögum við upplýsingabeiðnum um ýmislegt er tengist ESÍ en um leið sagt að nánari upplýsingar verði veittar um starfsemina í umræddri skýrslu sem stóð til að kæmi út fyrir fjórum árum.