Hilmar Þór Norðfjörð hefur rekið markaðs- og fjölmiðlunarfyrirtækið Media Group ehf. frá árinu 2005, en það sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu. Auglýsingamarkaðurinn hefur ekki farið varhluta af röskunum kórónufaraldursins, og hann segir hægara sagt en gert að fá viðskiptavini til að auglýsa þessa dagana. „Við lifum á miklum óvissutímum og því hafa mörg fyrirtæki nánast hætt að auglýsa.“

Þó hafi mörg fyrirtæki leitað til Media Group að undanförnu, sem vilji halda vörumerki sínu á lofti og tryggja að þau týnist ekki í umræðunni. Ýmis merki séu um að markaðurinn sé að vakna hægt og rólega til lífsins á ný. „Við erum að vinna með margvíslegum fyrirtækjum sem þurfa að koma sér af stað eftir erfiða tíma.“

Mikilvægt að viðhalda sýnileika
„Það er sagt um markaðsmál að þegar gengur vel þá máttu auglýsa en þegar hallar undan fæti þá áttu að auglýsa,“ segir Hilmar. Staðreyndin sé einfaldlega sú að auglýsingar séu nauðsynlegur hluti hverskyns rekstrar. Hafa verði í huga að markaðsstarf sé fjárfesting en ekki peningaeyðsla.

„Þegar upp er staðið þarf fólk áfram að kaupa vörur og þjónustu, og þá skiptir máli að fyrirtæki séu ennþá sýnileg og í umræðunni til að fólk muni eftir þeim,“ segir Hilmar. „Það er því mikilvægt þegar það er lítið að gera að nota takmarkað markaðsfé í að halda nafni sínu á lofti, vera hvetjandi og setja upp tilboð eða leiki á samfélagsmiðlum sem sýna að fyrirtækið er lifandi og muni standa af sér óveðrið. Það versta sem fyrirtæki getur gert er að loka sig alveg af og ætla að opna aftur þegar sólin byrjar að skína,“ segir hann.

„Þessi tími mun renna sitt skeið og við Íslendingar höfum alltaf komið aftur niður á fæturna. Öll él birtir um síðir. Þegar hlutirnir fara í gang aftur – hvenær sem það verður – munu þeir fjármunir sem varið er í auglýsingar skila sér til baka.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .