Úr­skurðar­nefnd um­hverfis- og auð­linda­mála hefur hafnað kröfu Hrauna­vina, Land­verndar, Land­græðslu- og um­hverfis­verndar­sam­taka Ís­lands og Náttúru­verndar­sam­taka Suð­vestur­lands um að fella úr gildi á­kvörðun bæjar­stjórnar Sveitar­fé­lagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Lands­neti fram­kvæmda­leyfi fyrir Suður­ne­sja­línu 2.

Að mati úr­skurðar­nefndarinnar voru ekki þeir form- eða efnisann­markar á undir­búningi eða með­ferð málsins og því var hafnað að ó­gilda niður­stöðuna.

Óska eftir heimild til eignarnáms

„Þar með eru öll fram­kvæmda­leyfi á línu­leiðinni í höfn og samið hefur verið við stærsta hluta land­eig­enda en hjá ráðu­neyti Um­hverfis-, orku- og lofts­lags­mála liggur fyrir beiðni um heimild til eignar­náms á hluta þriggja jarða sem línan liggur um og ó­samið er við,“ segir í til­kynningu frá Lands­net.

Sam­kvæmt Lands­neti gengur undir­búningur fyrir fram­kvæmdir vel og fram undan er að bjóða út efni í loft­línur en inn­kaupum á jarð­streng er lokið. „Ef allt gengur að óskum verður jarð­vinna boðin út í vor og fram­kvæmdir við þessu mikil­vægu línu, Suður­ne­sja­línu 2, munu hefjast síð­sumars.“

Saga Suður­ne­sja­línu 2 hefur verið löng og storma­söm en fyrsta fram­kvæmda­leyfið fékkst árið 2013 en land­eig­endur kærðu síðan því þeir vildu að línan yrði lögð í jörð. Hæsti­réttur ó­gilti fram­kvæmda­leyfið á grund­velli gallaðs um­hverfis­mats árið 2016 en Lands­net á­kvað eftir ítar­lega rýni að halda lof­línu­kostinum til streitu og óska eftir fram­kvæmda­leyfi.