Íslandsbanki
Íslandsbanki
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Öll fyrirtæki sem sóttu um Beinu brautina og hafa skilað inn nauðsynlegum gögnum til Íslandsbanka hafa fengið úrlausn sinna mála eða eru í úrlausnarferli. Alls 233 fyrirtæki falla undir Beinu brautina hjá Íslandsbanka.  Beina brautin byggir á samkomulagi um úrvinnslu á skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem undirritað var í desember síðastliðnum af Samtökum Fjármálafyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Fjármálaráðuneytinu, Viðskiptaráði og Félagi atvinnurekenda.

Þá er markmiðið Beinu brautinnar að fyrirtæki verði sjálfbær og geti staðið við sitt gagnvart eigendum, starfsfólki, lánveitendum og samfélaginu. Beina brautin er ætluð þeim sem fyrirtækjum sem eru með heildarskuldir undir einum milljarði króna. Frestur til að sækja um Beinu brautina rann út 1. júní. Alls hafa um 1000 fyrirtæki fengið úrlausn sinna mála hjá Íslandsbanka, þ.e. annað hvort í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, höfuðstólslækkun lána og/eða eignaleigusamninga.

„Frá því að samkomulagið var undirritað í desember síðastliðnum hefur allt kapp verið lagt á að vinna þetta verkefni vel og örugglega með okkar viðskiptavinum. Við erum afar ánægð með að hafa náð settu tímamarki en í því fólst mikil áskorun. Það vita allir að aðstæður í þjóðfélaginu eru mjög erfiðar og gerðu þær verkefnið mun erfiðara en ella. Eigendur og stjórnendur þeirra 250 fyrirtækja sem hafa nú fengið tilboð í gegnum Beinu brautina geta því farið að einbeita sér að því sem þeir eru bestir í, þ.e. að annast daglegan rekstur og að byggja upp sitt fyrirtæki til framtíðar. Það hjálpar íslensku samfélagi að komast aftur á beinu brautina,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs í fréttatilkynningju bankans.