*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 19. maí 2013 08:33

Ágreiningur um gengislán er einkaréttarlegur

Kærur til lögreglu vegna gengislána ekki tilefni til rannsóknar og hefur verið vísað frá segir sérstakur saksóknari.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Í svari Ólafs Haukssonar, sérstaks saksóknara, við fyrirspurn á vefsíðunni Spyr.is kemur fram að kærum til lögreglu vegna gengislána hefur að undanförnu verið vísað frá og ekki verið talin ástæða til rannsóknar. Ástæðan fyrir þessur segir Ólafur að staðreyndin sé sú að ágreiningur um réttarstöðu aðila þessara lánasamninga sé í eðli sínu einkaréttarlegur og byggir á kröfuréttar og samningssambandi þeirra á milli. Slíkur ágreiningur verður því leystur með einkaréttarlegum úrræðum en ekki með lögreglurannsókn. Hann segir fjölmörg mál um gengismál fyrir dómstólum einmitt bera vott um þetta.

Einnig segir í svari Ólafs að hámarksrefsing, ef til refsiábyrgðar hefði stofnast, væri eingöngu fésektir. Brot sem einvörðungu varði fésöktum fyrnast á tveimur árum og því eru flest þessara mála fyrnd í dag. 

Fyrirspurninina og svar Ólafs í heild sinni má sjá hér að neðan:

Fyrirspurn: ,,Varðandi gengistryggð lán sem ítrekað hafa verið dæmd ólögleg, hver í raun brýtur lögin er það starfsmaður lánafyrirtækisins eða forstöðumaður þess? Hvern á að kæra til efnahagsbrotadeildar lögreglunar? Starfsmanninn sem útbjó ólöglega lánasamninginn fyrir lánafyritækið eða forstöðumanninn fyrir þess hönd?"

Svar: Varðandi svarið við fyrirspurninni þá er spurt um hvernig eigi að standa að kæru til lögreglu vegna gengislána. Því er til að svara að kærur sem berast embættinu eru margskonar og mest um vert er að þeim fylgi sem bestar upplýsingar um kæruefnið og alla þá sem komu að háttseminni sem auðveldar lögreglu rannsóknarvinnuna í framhaldinu. Lögreglan tekur sjálf afstöðu til þess hvernig hún hagar rannsókn og að hverjum henni skuli beint þannig að kæran ræður þar ekki alveg ferð.Þar sem spurt er um kærur vegna gengislána sérstaklega þá er rétt að benda á að nokkur slík hafa verið kærð til lögreglu án þess að það hafi leitt til rannsóknar heldur hefur þeim kærum verið vísað frá. Ástæður fyrir því eru nokkrar og þær helstu eru þessar:

1.       Með dómi Hæstaréttar 16. Júní 2010 í máli nr. 153/2010 var fyrst kveðið úr um það að gengistrygging lánasamninga stæðist ekki gagnvart ákvæðum VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Síðan þá hafa fallið aðrir dómar sem skýrt hafa einkaréttarlega stöðu aðila slíkra samninga auk þess sem bæði handhafar löggjafarvalds og framkvæmdavalds hafa gripið til sérstakra aðgerða til að skýra þá stöðu frekar. Þessi niðurstaða Hæstaréttar leiðir þó ekki sjálfkrafa til þess að allir aðilar slíkra gengistryggðra lánasamninga teljist hafa bakað sér refsiábyrgð skv. 17. gr. laga um vexti og verðtryggingu eða annarra refsiákvæða, til þess þyrftu refsiskilyrði að vera uppfyllt og það í hverju tilviki fyrir sig. Staðreyndin er sú að ágreiningur um réttarstöðu aðila þessara lánasamninga er í eðli sínu einkaréttarlegur og byggir á kröfuréttarog samningssambandi þeirra á milli. Slíkur ágreiningur verður leystur með einkaréttarlegum úrræðum en ekki með lögreglurannsókn eins og fjölmörg mál um gengismál fyrir dómi bera vott um.

2.       Ef talið yrði að til refsiábyrgðar hefði stofnast við gerð þessara samninga þá yrði það með vísun í 17. gr. laga um vexti og verðtryggingu en hámarksrefsing við slíkum brotum eru fésektir. Þau brot sem einvörðungu varða fésektum fyrnast á tveimur árum skv. 81  gr. almennra hegningarlaga og því flest þessara mála því fyrnd í daga.Þessi afstaða til kæruefna vegna þessara mála hefur verið staðfest af ríkissaksóknara.