*

laugardagur, 16. nóvember 2019
Innlent 30. september 2019 19:00

Öllum sagt upp hjá Ísfiski

Fyrirtækið Ísfiskur á Akranesi hefur sagt 60 starfsmönnum félagsins upp störfum.

Ritstjórn
Upp undir 60 starfsmenn störfuðu hjá Ísfiski á Akranesi.
Haraldur Guðjónsson

Um 60 starfmönnum Ísfisks á Akranesi hefur verið sagt upp störfum. Þetta kemur fram á vef Verkalýðsfélags Akraness, en formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, sat í dag starfsmannafund hjá fyrirtækinu þar sem uppsögnin var tilkynnt. 

„Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins, að allar uppsagnir séu gerðar með fyrirvara um að fyrirtækinu takist að endurfjármagna sig, en til þessa hefur það ekki tekist, en sú vinna er enn í gangi,“ segir á vef Verkalýðsfélagsins.

Ísfiskur keypti hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda haustið 2017 og flutti starfsemi sína frá Kársnesi í Kópavogi á síðasta ári. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vinnslu á ýsu og sölu á mörkuðum erlendis, en hárefni til vinnslunnar er að stærstum hluta keypt á markaði.

„Það er óhægt að segja að þessi tíðindi séu enn eitt þunga höggið sem við Akurnesingar höfum þurft að þola í atvinnumálum á liðnum árum og misserum, en rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem fengu þessi tíðindi í dag, gengu í gegnum uppsagnir þegar HB Grandi lokaði og hætti allri starfsemi á Akranesi árið 2017,“ segir á vef Verkalýðsfélagsins.

„Það er lítið annað að gera, en að vona að forsvarsmönnum Ísfisks takist á næstu dögum og vikum að endurfjármagna sig, þannig að ekki komi til þessara uppsagna, en það er ljóst að lítið annað er hægt að gera í stöðunni núna, en að vona það besta, en búa sig undir Það versta.“    

„Eins og áður sagði telur formaður mikilvægt að bæjarbúar þétti raðirnar og á þeirri forsendu mun félagið skoða það alvarlega að halda íbúafund þar sem farið yrði yfir þessa alvarlegu stöðu sem er að teiknast upp í okkar atvinnulífi og á þann fund yrði að sjálfsögðu þingmönnum kjördæmisins boðið sem virðast þessa daganna ekki hafa miklar áhyggjur af stöðu mála hér á Akranesi!“ segir í niðurlagi greinarinnar á vef Verkalýðsfélags Akraness.