Öllum starfsmönnum útvarpsstöðvanna XFM og KissFM var sagt upp störfum nú fyrir áramótin og hefur hefðbundin dagskrá þegar verið felld niður. Stöðvarnar eru í eigu Íslenska útvarpsfélagsins en aðaleigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson.

Að sögn starfsmanns, sem ekki vildi láta nafns síns getið, segir í uppsagnarbréfinu að ástæðan sé "skipulagsbreytingar í tengslum við dagskrárgerð fyrirtækisins". Framkvæmdastjóri félagsins hafi hins vegar gefið starfsmönnum þá skýringu að útvarpsleyfi fengist ekki endurnýjað um áramótin vegna þess að STEF krefðist tryggingar á greiðslu stefgjalda.

Stöðvarnar tvær hafa undanfarna mánuði veitt útvarpsstöðvum 365 miðla harða samkeppni og mun óhætt að fullyrða að þær hafi einkum keppt við stöðvarnar X-ið og FM. Uppsöfnuð hlustun XFM var tæplega 10% og KissFM liðlega 11%, samkvæmt könnun Capacent í nóvember.

Athygli vekur að um svipað leyti og starfsmönnum stöðvanna var sagt upp var tilkynnt að Birtíngur, langstærsta tímaritaútgáfa landsins sem einnig er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar, hefði runnið saman við Fögrudyr, útgáfufélag tímaritsins Ísafoldar. Stærsti eigandi hins sameinaða félags með 60% hlut er eignarhaldsfélagið Hjálmur, sem er alfarið í eigu Baugs. Baugur er sem kunnugt er einnig stærsti hluthafinn í 365 -- félaginu sem nú virðist hafa losnað tvo keppinauta á útvarpssviðinu.

Í kjölfar samstarfs Sigurðar og Baugs í tímaritaútgáfu hafa vaknað spurningar um viðbrögð Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, en Árvakur er stór hluthafi í Blaðinu þar sem Sigurður er stjórnarformaður. Einar Sigurðsson forstjóri Árvakurs segir að samstarf Sigurðar við aðaleiganda Fréttablaðsins á sviði tímaritaútgáfu hafi engin áhrif á aðkomu Árvakurs að Blaðinu enda sé þar ekki um að ræða samkeppni við Árvakur. Ekki náðist í Sigurð G. Guðjónsson í gær.