Ólöf Nordal innanríkisráðherra er opin fyrir því að auka frelsi á leigubílamarkaði og kveðst hún vera hrifin af Uber þjónustunni. Þetta kemur fram á Vísi .

Uber þjónustan hefur verið að hasla sér völl víða um heim og er orðin risastór í Bandaríkjunum og Asíu. Þá er einnig boðið upp á Uber í nokkrum Evrópulöndum en hins vegar hafa nokkur þeirra bannað þjónustuna. Nú síðast varð allt vitlaust í París eftir mótmæli leigubílstjóra og endaði það með handtöku tveggja framkvæmdastjóra Uber.

„Mér finnst æskilegt að huga að því hvort það sé ekki hægt að auka frelsi á þessum markaði. Ég er talsmaður þess en hef þó ekki tekið neina ákvörðun,“ segir Ólöf við Vísi.

Uber er snjallsímaforrit sem virkar þannig að notendur kalla eftir leigubíl. Bíllinn mætir á svæðið innan skamms og notendur greiða í gegnum forritið. Þessi þjónusta er líklega ekki heimil á Íslandi samkvæmt lögum en þó hefur verið kallað eftir henni.

„Ég hef fylgst með Uber-flæðinu í útlöndum og er hrifin af því. Ég er þó ekki komin neitt af stað með að skoða það og veit ekki hvort það verði gert,“ segir Ólöf og bætir við að reglur á leigubílamarkaði á Íslandi séu mjög stífar.