Ólöf Nordal er formaður sérfræðinganefndar sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur skipað um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands. Auk Ólafar sitja í nefndinni þau dr. Friðrik Már Baldursson, hagfræðingur og Þráinn Eggertsson, hagfræðingur.

Nefndin skal skila fjármála- og efnahagsráðherra frumvarpi til nýrra laga um Seðlabanka Íslands eigi síðar en 31. desember næstkomandi. Kjósi nefndin svo, getur hún gert tillögu til ráðherra um breytingar á einstaka ákvæðum áður en heildarendurskoðun er lokið.

Í starfi sínu skal nefndin gaumgæfa þróun á starfsemi annarra seðlabanka og löggjöf á sviði peningamála og efnahagsstjórnunar með það að markmiði að treysta trúverðugleika og sjálfstæði bankans og traust á íslenskum efnahagsmálum. Með hliðsjón af því umróti sem orðið hefur á fjármálamörkuðum á undanförnum árum skal nefndin einnig skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Nefndinni er ætlað að eiga reglulegt og náið samráð við samráðsnefnd fulltrúa þingflokka á Alþingi um heildarendurskoðun laga um Seðlabankann allt þar til tillögur að lagabreytingum liggja fyrir. Auk þess skal nefndin eiga samráð við aðila vinnumarkaðarins og aðra haghafa.