Harkaleg og óvægin umræða í stjórnmálum er eitthvað sem lítið hefur breyst, segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra. Ólöf er í ítarlegu viðtali í sérblaði Viðskiptablaðsins, Áhrifakonur, sem kemur út á morgun.

„Það sem mér hefur fundist lengi vera galli á okkar umræðu hér, ef maður hefur fylgst með fréttum annars staðar sem ég hef alltaf gert og sérstaklega síðustu ár þegar ég bjó úti, er hvernig umræðan er fljótt hætt að snúast um mál og fer að snúast um eitthvað allt annað. Það er vandamál hjá okkur hversu erfitt það er að tala um málið sem liggur á borðinu.

Við erum farin að tala um formið mjög mikið, umræðuna sjálfa en ekki efni máls. Þetta hefur þreytt mig mikið og gerir ennþá. Ég er ekki að segja að ég sé undanskilin þessu en við höfum ekki náð tökum á þessu.“

„Mér finnst við líka allt of fljót að ráðast á fólk persónulega og persónugera mál. Það hefur lengi verið viðloðandi þetta litla samfélag. Er það af því við erum svona fá, veit ég ekki. Mér finnst það ekki afsaka það neitt að við séum fá og við ættum að leggja á okkur ríkari skyldur á herðar.

Stjórnmálamenn í ábyrgðastöðum eru orðnir almenningseign sem er eðlilegt en þeirra persónulega líf á ekkert endilega að vera það. Maður veit það sjálfur með krakkana sína að þau fylgjast með. Þau finna fyrir því þegar nafn fólks er komið inn í umræðuna en ekki það sem verið er að tala um. Ég held við getum gert miklu betur í þessu. Fyrst og fremst verðum við að hugsa um að gera þetta öðruvísi.“