Ómar Benediktsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugfélagsins SmartLynx í Lettlandi, dótturfélags Icelandair Group. Hann mun taka við starfinu af Eugene O'Reilly sem gegnt hefur því tímabundið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group.

Þar kemur fram að O'Reilly mun líkt og fyrirhugað var hverfa til aftur til starfa sem aðstoðarframkvæmdastjóri Icelease, en mun jafnframt taka sæti í stjórn SmartLynx.

SmartLynx er leiguflugfélag með starfsemi víða um heim, en höfuðstöðvar í Riga í Lettlandi.

Ómar býr yfir mikilli reynslu af flugrekstri, m.a. sem forstjóri og einn aðaleigenda Íslandsflugs, og síðar Air Atlanta. Hann hefur undanfarin ár gegnt varaformennsku í stjórn Icelandair Group, en mun hverfa úr stjórninni á aðalfundi félagsins í mars.