Enskumælandi ferðamenn reka margir upp stór augu þegar þeir aka um Tarsdorf-hérað í Austurríki, rétt sunnan þýsku landamæranna um 32 kílómetra norður af Salzburg. Þar mega menn eiga von á að sjá vegvísa með stórri áletrun með orðinu "FUCKING". Hafa þessir vegvísar vakið mikla athygli og þykja eftirsóttir minjagripir, einkum af Bretum.

Hvorki lögregla né ferðamálayfirvöld hafa enn séð ástæðu til að amast við þessum skiltum, enda ekki endilega vísbending að um óhætt sé að eðla sig á grasbölum undir þessum merkingum. Aftur á móti er þar um að ræða vísun á smábæinn Fucking, sem hefur haft þetta nafn í það minnsta allar götur síðan árið 1070. Er bærinn nefndur eftir manni sem uppi var á sjöundu öld og hét Focko. Endingin "ing" er sögð gömul þýsk tilvísun sem vísar til tengingu fólks við ákveðinn stað. Sem sagt nafnið þýðir í raun staður fólksins í Focko.

Greinilega er samt ekki mikil eftirspurn eftir því að gerast gildir limir í bænum Fucking, því íbúatalan hefur um árabil vart náð einu hundraði. Hins vegar hefur bærinn hlotið mikla frægð út á nafnið sitt og enskumælandi útlendingar stoppa gjarnan við vegvísana til að láta taka af sér mynd.

Heilu bílförmunum stolið

Umtalsverðum fjármunum er varið í að endurnýja skiltin, sem ferðamönnum þykir eftirsóknarvert að hafa á brott með sér sem minjagripum. Hafa meðal annars verið fréttir af því erlendis að breskir ferðamenn hafi stolið heilu bílförmunum af slíkum skiltum. Öðrum þykir nafnið svo dónalegt að á einni amerískri heimasíðu þar sem sagt er frá skilti með bæjarnafninu, er nafnið gert óskýrt líkt og þekkt er um andlit meintra afbrotamanna.

Flestir þorpsbúar eru mjög íhaldssamir og guðræknir og mega ekki vamm sitt vita. Sem betur fer, kannski, skilja fæstir þeirra ensku ef marka má orð bæjarstjórans Siegfried Hauppl. Þeir kæri sig því kollótta þegar útlendingar vilji endilega fá þá til að segja sér hvar þeir eigi heima.

Vegna þeirrar athygli sem nafnið hefur fengið var samt efnt til kosninga árið 2004 um hvort breyta ætti nafni bæjarins. Var sú tillaga felld, en í staðinn var byrjað á því í ágúst 2005, að koma upp þjófaheldum skiltum sem rafsoðin eru við stálstaura sem steypir eru niður í jörðina.

"We had a vote last year on whether to rename the town, but decided to keep it as it is. After all, Fucking has existed for 800 years, probably when a Mr Fuck or the Fuck family moved into the area," sagði bæjarstjórinn í fjölmiðlaviðtali í fyrra.

Þó sumir fari ef til vill hjá sér vegna athyglinnar, býður bæjastjórinn ferðamenn samt velkomna. Enda sé það hið besta mál fyrir ferðamannaþjónustuna á staðnum, í hverju svo sem hún nú felst.

Heimild Viðskiptablaðið.