Gríski fjármálaráðherrann Yanis Varoufakis segir að til greina komi að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi ef ríki evrusvæðisins hafna tillögu gríska ríkisins um endurskipulagningu skulda ríkisins.

Í dag funda fjármálaráðherrar evrusvæðisins og munu Grikkir þar leggja fram ítarlega áætlun um það hvernig taka eigi á skuldamálum gríska ríkisins og ýta undir hagvöxt í landinu.

Í viðtali við ítalska blaðið Corriere della Sera var Varoufakis spurður að því hvaða möguleikar væru opnir ef evruríkin hafna áætluninni. „Ef þörf er á, ef mótstaðan er alger, þá munum við leita til grísku þjóðarinnar, annað hvort með kosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Ummælin voru af sumum túlkuð þannig að um hótun um að yfirgefa evruna væri að ræða, en grísk stjórnvöld höfnuðu strax þeirri túlkun.

Í bréfi til fjármálaráðherra evrusvæðisins lagði Varoufakis fram tillögur í sjö hlutum, sem hann vonast til að muni falla nægilega vel í kramið hjá fjármálaráðherrunum til að þeir samþykki áframhaldandi fjárhagslegan stuðning við Grikkland.

Fela þær m.a. í sér sparnað upp á 200 milljónir evra, andvirði um 30 milljarða króna, með niðurskurði opinberra útgjalda og hagræðingu í embættismannakerfinu auk þess sem taka á með harðari hætti á skattsvikum.