Eignarhaldsfélagið Hof, sérleyfishafi IKEA á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum stefnir að því að opna fyrstu IKEA verslunina í fullri stærð í Eistlandi á næsta ári, ári á undan áætlun. Verslunin mun vera á tveimur hæðum og telja um 30 þúsund fermetra. Áætlað að framkvæmdir hefjist senn og taki um 16 mánuði og muni kosta um kosta um 3,5 milljarða króna. Fyrir rekur félagið IKEA netverslun og afgreiðslu í Eistlandi sem opnaði árið 2019.

IKEA verslun Hofs í Litháen opnaði árið 2013 og í Lettlandi árið 2018. Hof, hagnaðist um 2,6 milljarða á síðast rekstrarári sem lauk í lok september 2020 miðað við 2,25 milljarða á fyrra ári.

Mestu munaði um hlutdeild Hofs í hagnaði hollenska félagsins FE Corporation BV, sem á IKEA í Lettlandi, Litháen og Eistlandi, en hún nam um 2 milljörðum króna og batnaði um 100 milljónir króna á milli ára. Hof á 57% hlut í hollenska félaginu. Hagnaður Miklatorgs, sem rekur IKEA á Íslandi, jókst úr 210 milljónum í 499 milljónir króna á milli ára.

Velta samstæðu Hofs jókst úr 34,8 milljörðum í 40,6 milljarða króna á milli ára. Um 70% tekna samstæðunnar verða til í Eystrasaltsríkjunum og um 30% á Íslandi. Eignir Hofs í lok september 2020 námu 32 milljörðum króna en þar af voru fasteignir, áhöld og tæki metin á 16 milljarða króna og eigið fé nam um 11 milljörðum króna. Hof er í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona.