Ökumenn rafbíla geta sótt sér snögga áfyllingu á bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar hefur sett upp í Borgarnesi í samstarfi við N1.

Stöðin, sem stendur við N1 Borgarnesi, er sjöunda stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi og sú fyrsta sem stendur við þjóðveg númer eitt. Stöðvarnar sem nú þegar hafa verið opnaðar eru á Reykjavíkursvæðinu og á Suðurnesjum. Fyrirhuguð er uppsetning stöðva í uppsveitum Suðurlands og í miðborg Reykjavíkur.

Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur. Þetta er tilraunaverkefni til tveggja ára og á meðan tilrauninni stendur verður hleðslan á stöðvunum gjaldfrjáls.