Klak Innovit nýsköpunar og frumkvöðlasetur og Arion banki standa í sameiningu fyrir viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík fjórða árið í röð nú í sumar. Opnað hefur verið fyrir umsóknir, en markmið Startup Reykjavík er að hraða ferlinu sem sprotafyrirtæki fara í gegnum. Er greint frá þessu í tilkynningu.

Tíu fyrirtæki taka þátt í Startup Reykjavík hverju sinni og stendur verkefnið yfir í tíu vikur. Fyrirtækin fá sameiginlega skrifstofuaðstöðu, aðstoð og leiðbeiningar frá tugum mentora auk þess sem Arion banki leggur hverju og einu fyrirtæki til 2 milljónir í hlutafé gegn 6% eignarhlut.

Sem dæmi um hugmyndir sem tekið hafa þátt í Startup Reykjavík má nefna framleiðslu á próteinstykjum úr skordýrum, þróun vinnurýmis í sýndarveruleika, viskíframleiðslu, þróun og framleiðsla á sjálfvirkum lyfjaskammtara, fatahönnun, upplýsingar um söngtexta og gítargrip og margt fleira.

Hingað til hafa 30 fyrirtæki tekið þátt í Startup Reykjavík. Sextán þeirra eru ennþá virk, þrjú hafa verið sett í biðstöðu og eitt hefur hætt starfsemi. Hjá þessum fyrirtækjum vinna hátt í 90 manns í 58 fullum stöðugildum. Að meðaltali vinna því þrír starfsmenn í tveimur stöðugildum hjá þeim fyrirtækjum sem enn eru full virk.

Alls hefur verið fjárfest í þessum fyrirtækjum fyrir 280 milljónir króna og þau hafa hlotið styrki fyrir meira en 350 milljónir. Hluti styrkupphæðanna er háð framvindu verkefnanna.