*

mánudagur, 8. mars 2021
Erlent 23. febrúar 2021 17:06

Oprah og Jay-Z geta hagnast vel á Oatly

Markaðsvirði sænska haframjólkurframleiðandans Oatly kann að fimmfaldast á innan við ári.

Ritstjórn
Oprah Winfrey og Jay-Z.
epa

Sænski haframjólkurframleiðandinn Oatly er á leið á markað. Félagið kann að vera metið á allt að 10 milljarða dollara, jafnvirði 1.300 milljarða króna að því er FT greinir frá.

Í sumar var félagið metið á um 2 milljarða dollara, um 260 milljarða króna, í fjármögnunarumferð sem Blackrock leiddi en fjölmiðlakonan Oprah Winfrey og tónlistarmaðurinn Jay-Z tóku þátt í líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um þá. Meðal annara þekktra hluthafa er leikkonan Natalie Portman. 

Markmið skráningarinnar er sagt vera að styðja frekari vöxt félagsins en búist er við að einhverjir hluthafar muni losa hluti í félaginu. 

Vörur Oatly eru seldar víða um heim, þar með talið hér á landi. Oatly velti um 200 milljónum dollara árið 2019 og tvöfaldaði þá veltuna á milli ára. Félagið hefur gefið út að stefnt hafi verið á annað eins árið 2020.

Eftirspurn eftir gervimjólk unnin úr plöntum hefur aukist til muna á síðustu árum. Í Bandaríkjunum er er talið að söluaukning slíkra vara hafi numið 28% á síðasta ári.