Borgarráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt sölu Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á jörðinni Úlfljótsvatn. Þar með getur OR selt jörðina, en kaupendur sem rætt er við eru Bandalag íslenskra skáta og Skógræktarfélag Íslands. Borgarráð samþykkti væntanlega sölu á fundi 1. desember síðastliðinn. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðins er kaupverð um 200 milljónir króna. Kaupin eru ólík annarri eignasölu OR að því leyti að jörðin er ekki sett í útboð. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er ástæðan fyrir því sú að kaupendur, það eru Skátarnir og Skógræktarfélagið, höfðu samband við OR að fyrra bragði og lýstu yfir áhuga á að eignast jörðina. Skátarnir hafa um árabil starfrækt útilífsmiðstöð við Úlfljótsvatn.