Guðni Ágústsson, formaður orðunefndar, segir mikilvægt að setjast yfir þá stöðu sem komin er upp nú eftir að handhafi fálkaorðunnar, Sigurður Einarsson, hefur verið dæmdur í fangelsi. Guðni segir í samtali við fréttastofu RÚV að athygli orðunefndar hafi verið vakin á málinu og henni sé skylt að fara yfir málið og kanna hvort það hafi komið upp áður og hvað hafi verið gert í slíku tilfelli. Næsti fundur orðunefndar verði haldinn eftir mánaðamót.

Í 11. gr. Forsetabréfs um hina íslensku fálkaorðu segir að hægt sé, að ráði orðunefndar, að svipta þann rétti til að bera fálkaorðuna sem gerst hefur sekur um misferi.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sæmdi Sigurð riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007 „fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi“, eins og það var orðað í Stjórnartíðindum. Sigurður, sem er fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, var í Hæstarétti í gær dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir þátt hans í Al-Thani málinu.