*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 17. apríl 2018 10:56

Origo lækkar um nálega 9%

Gengi bréfa Origo hefur lækkað það sem af er degi eftir afkomuviðvörun félagsins vegna allt að 40 milljóna taps á 1. ársfjórðungi.

Ritstjórn

Kauphöllin hefur lýst upp rauð það sem af er viðskiptadegi í kauphöll Nasdaq Iceland en einungis eitt félag sem gerð hafa verið viðskipti með hefur hækkað í verði. Það er Eik fasteignafélag sem hefur hækkað um 1,19% upp í 10,20 krónur í 153 milljóna viðskiptum.

Mesta lækkunin er hins vegar á gengi bréfa Origo, eða 8,74% í 30 milljóna viðskiptum þegar þetta er skrifað og er gengið nú 21,40 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá sendi félagið frá sér afkomuviðvörun vegna taps á 1. ársfjórðungi, meðal annars vegna 50 milljóna kostnaðs af nafnabreytingu fyrirtækisins sem áður hét Nýherji.

Flest önnur félög hafa lækkað um minna en 1%, nema N1 og Icelandair. Lækkun N1 er 2,07% í 108 milljóna viðskiptum og er gengið nú 118,00 krónur. Lækkun Icelandair nemur 1,18% í 47 milljóna viðskiptum og er gengið nú 14,24 krónur.

Stikkorð: kauphöllin Icelandair Nýherji N1 Origo