*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 19. nóvember 2018 16:43

Origo selur í Tempo fyrir 4,3 milljarða

Origo hefur gengið frá sölu á Tempo til Diversis en í sölunni er Tempo metið á 7,7 milljarða króna.

Ritstjórn
Finnur Oddsson, forstjóri Origo.
Haraldur Jónasson

Origo hefur skrifað undir kaupsamning við félagið Diversis um kaup þess síðarnefnda á 55% hlut í Tempo. Söluverðið er 34,5 milljónir dollara eða tæplega 4,3 milljarðar króna. Því er Tempo í heild metið á 62,5 milljónir dollara eða um 7,7 milljarða króna. Þá munu félögin leggja 2 milljónir dollara í rekstur Tempo í hlutfalli við eignarhlut sinn. Félögin segjast bæði ætla að styðja við innri og ytri vöxt félagsins á næstu árum, eftir því sem tækifæri gefast.  

Áætlaður söluhagnaður Origo vegna viðskiptanna er um þrír milljarðar króna. Auk þess hækkar verðmat á 45% eignarhlut Origo í Tempo sem eftir stendur hækka um tvo milljarða króna. Heildaráhrif viðskiptanna á afkomu Origo í rekstrarreikningi í fjórða ársfjórðungi eru því jákvæð um fimm milljarða króna.   

Finnur Oddsson, forstjóri Origo segir að kaup Diversis á hlut í Tempo séu afar góðar fréttir, bæði fyrir Origo og Tempo. „Í þessari sölu á ríflega helmingshluta Tempo felst viðurkenning á frábæru starfi starfsfólks Tempo og Origo síðustu ár.  Um leið eru verðmæti íslensks hugvits staðfest áþreifanlega, en síðustu misseri hefur slíkt þróunarstarf fengið aukna athygli og stuðning stjórnvalda, sem er vel. Tempo hefur gengið vel undanfarin ár, vaxið hratt og stendur nú styrkum fótum.  Árstekjur félagsins nema ríflega USD 20 milljónum og viðskiptavinir eru ríflega 12.000 í yfir 120 löndum, þjónað af 100 manna samhentum hópi starfsfólks í Reykjavík og Montreal. Við fögnum því sérstaklega að fá Diversis til samstarfs um að gera veg og vanda Tempo enn meiri, en sérþekking þeirra á sviði tækni, hugbúnaðarþróunar og markaðssetningar mun nýtast til að styrkja vöruþróun og efla enn frekar tekjuvöxt á næstu árum. Með stuðningi Diversis og Origo gerum við ráð fyrir að nú fari í hönd nýr kafli þróunar og tekjuvaxtar hjá Tempo og að virði félagsins geti aukist verulega á næstu misserum.  Við höfum því lagt sérstaka áherslu á að Origo haldi áfram verulegum eignarhlut í félaginu og teljum það reyndar eitt af mikilvægari hagsmunamálum hluthafa Origo," er haft eftir Finni.